top of page

Jafnrétti
Róttækni  Heiðarleiki

Röskva, samtök félagshyggjufólks innan Háskóla Íslands, er stúdentahreyfing sem var stofnuð árið 1988. Grundvallarstefna Röskvu hefur alla tíð verið jafnrétti allra til náms, en kjörorð hreyfingarinnar eru jafnrétti, róttækni og heiðarleiki. Með þau gildi að leiðarljósi eru helstu baráttumál hreyfingarinnar umhverfis- og samgöngumál, hinseginmál, kynjajafnrétti, húsnæðismál, lánasjóðsmál og geðheilbrigðismál. Röskva leggur einnig áherslu á að hagsmunabaráttan takmarkist ekki við háskólann og lætur sig því varða hin ýmsu samfélagsmál er tengjast hagsmunum stúdenta.

 

Fram að seinustu kosningum til Stúdentaráðs hafði Röskva verið í meirihluta í sjö ár. Á þeim tíma fjölgaði sálfræðingum úr einum í fjóra, tanngreiningum í HÍ á fylgdarlausum ungmennum og börnum á flótta var hætt, HÍ varð Grænfánaskóli, rétt var úr 10,4 milljóna hallarekstri skrifstofu SHÍ og sjúkra- og endurtektarpróf haustmisseris eru nú tekin í desember og janúar en ekki í maí.

 

Innan Röskvu eru sjö nefndir sem halda uppi innra starfinu en þær eru alþjóðanefnd, kynningarnefnd, málefnanefnd, nýliðunarnefnd, ritstjórn, skemmtinefnd og meistaradeildin. Í upphafi haustannar er opnað fyrir umsóknir í þessar nefndir á samfélagsmiðlum Röskvu og þá geta allir áhugasamir stúdentar sótt um sæti. Allir viðburðir Röskvu eru opnir öllum og því er gott fyrsta skref að mæta á einn slíkan og taka þátt!

UM FÉLAGATALIÐ

Endurnýjun félagatals skal fara fram minnst árlega, eftir kosningar til Stúdentaráðs. Endurnýjun félagatals skal vera lokið minnst viku fyrir aðalfund félagsins og aðeins þau sem skráð eru fyrir það hafa atkvæðisrétt á aðalfundi. Varaforseti annast félagatalið.

Til þess að geta skráð sig í félagatalið þarf að uppfylla a.m.k. eitt af þessum skilyrðum:

  • Viðkomandi sé skráður nemandi við Háskóla Íslands eða hefur gengt trúnaðarstarfi fyrir Röskvu.

  • Viðkomandi hafi tekið virkan þátt í starfi Röskvu.

  • Skráningarbeiðni hafi borist þess efnis til umsjónarmanns félagatals.

 

Komi upp vafi um skráningu í félagatalið hefur stjórn úrskurðarvald.

bottom of page