TÆKNIVÆDDARI HÁSKÓLI
Röskva telur að með sífelldri tækniþróun séu fjölmargir möguleikar fyrir háskólann til að stíga inn í nútímann. Aukin notkun nútímatækni er skref í því að gera háskólann samkeppnishæfari. Þá getur aukin tækninýting auðveldað stúdentum lífið á marga vegu og er það bæði fjárhagslega hagstætt og umhverfisvænt að færa háskólann á tæknivæddari mið.
HÁMU- OG NEMENDAKORT FYRIR STÚDENTA
Stúdentar versla talsvert við Félagsstofnun stúdenta, til að mynda í Hámu, á Stúdentakjallaranum og í Bóksölu stúdenta. Röskva vill sjá rafræn kort sem veita stúdentum afslátt í verslunum FS og sem hægt er að leggja inn á til hægðarauka. Kortið gæti einnig verkað til að kaupa prentkvóta og nýta sem bókasafnskort háskólanema. Þetta myndi einnig stytta raðir í Hámu í hádegishléum.
RAFRÆN AÐGANGSKORT – BÆTTUR AÐGANGUR AÐ LÆRDÓMSAÐSTÖÐU!
Rafræn aðgangskort innan HÍ gilda nú að Háskólatorgi og í eina byggingu að eigin vali á háskólasvæðinu. Röskva vill sjá aðgang að fleiri byggingum Háskólans með rafrænum aðgangskortunum og að aðgangskortin veiti sólarhringsaðgang að byggingum Háskólans þar sem við á. Sú vinna er hafin undir núverandi forystu Stúdentaráðs og viljum við sjá henni fylgt eftir á næsta ári. Framsýn Röskvu er sú að Hámukort og aðgangskort geti orðið að einu og sama kortinu fyrir alla háskólanema og þannig einfaldað líf þeirra. Í kjölfarið ætti slík þjónusta að vera aðgengileg í appi.
INNLEIÐING CANVAS, BETRA KENNSLUUMSJÓNARKERFIS
Nú stendur yfir innleiðingartímabil á Canvas, nýju kennsluumsjónarkerfi HÍ. Röskva telur það mikla framför og hvetur kennara til að nýta alla möguleika þess. Röskva leggur áherslu á mikilvægi þess að aðeins eitt forrit sé í notkun, starfsfólki og stúdentum í hag.
RAFRÆNT PRÓFAHALD Í INSPERA
Röskva fagnar innleiðingu rafræns prófakerfis í HÍ en það er hægt að nota til verkefnaskila og hlutaprófa sem og lokaprófa. Tryggja þarf að vandað sé til verka við innleiðinguna og að kennarar fái nægilegan stuðning við gerð prófa. Þá skal öllum stúdentum standa til boða að taka Inspera próf á eigin tölvur og má fylgja fordæmi deilda sem þegar hafa innleitt prófakerfið í persónulegar tölvur.
TÖLVUSTOFUR
Tölvur í tölvustofum eru oft og tíðum ekki í uppfærðu ástandi, t.d. hefur komið fyrir að forrit sem nemendur þurfa að nota eru óaðgengileg í tölvunum. Þetta þarf að bæta. Þá má kanna möguleika á betra aðgengi að tölvunum með betra bókunarkerfi.
AKADEMÍAN OG SKAPANDI HUGSUN
Rými til sköpunar í samstarfi við Icelandic StartUp og FabLab gæti ýtt undir frumkvöðlastarf í skólanum. Hvetja þarf til nýsköpunar og rými sérstaklega undir þá starfsemi myndi koma sér mjög vel fyrir stúdenta.
RAFBÆKUR
Röskva vill að allar kennslubækur séu aðgengilegar á rafrænu formi. Það er bæði gott fyrir umhverfið sem og fjárhagslegur ávinningur fyrir stúdenta. Skoða mætti að Bóksala stúdenta byði upp á Kindle leigu til að auka aðgengi að rafbókum.
NOTKUN OPINS HUGBÚNAÐAR
Röskva vill að notast verði í auknum mæli við opinn hugbúnað (e. Open Source) í kennslu. Til þess að tryggja jafnt aðgengi allra að kennslu er mikilvægt að námsmenn geti sótt kennsluforrit beint í eigin tölvur án þess að borga há gjöld. Þar að auki auðveldar það tækifæri þeirra eftir nám að hafa lært á aðgengileg forrit.
TÆKNIVÆDDARI KENNSLUHÆTTIR
Röskva vill að notast verði við fjölbreyttari kennsluhætti og að kennarar nýti sér nýjustu tækni til þess, t.d. með því að brjóta upp kennsluna með notkun hlaðvarpa. Notkun hlaðvarps til að miðla námsefni til nemenda hefur til að mynda nýst vel í Almennri lögfræði.