TEACHING- AND QUALITY AFFAIRS
One of the biggest student interest fights is the quality of teaching and education. The primary objective of higher education is to mediate information to students but to make that possible we need to bring about radical action and employ diverse and novel teaching methods.
- IMPROVED TEACHING METHODS-
LECTURE RECORDINGS
Access to lecture recordings is an equality affair and opens the possibility of education from the University of Iceland to a diverse group. It is pertinent that alongside increased access to lecture recordings, distance learning be strengthened.
VIRK ENDURGJÖF
Röskva gerir kröfu um að stúdentar fái virka endurgjöf við verkefnum sínum og prófum. Röskva krefst þess að kennarar gefi nemendum greinargóðar skýringar við námsmat verkefna og prófa svo stúdentar geti lært af þeirri vinnu sem þeir leggja í námið sitt. Einnig stuðlar þetta að því að kennarar færi rök fyrir námsmati og dregur úr geðþóttaákvörðunum og ófaglegri einkunnagjöf. Röskva leggur til að háskólinn hafi skýrar verklagsreglur fyrir kennara hvað varðar endurgjöf til að stuðla að gagnsæi námsmats.
BETRI EFTIRFYLGNI KENNSLUKANNANA
Röskva vill tryggja, með skýrum reglum og verkferlum, að niðurstöður kennslukannana nýtist til þess að bæta nám við Háskóla Íslands. Röskva krefst þess að fulltrúar nemenda verði upplýstir um niðurstöður kennslukannana og komi að tillögum til úrbóta.
MEIRA GAGNSÆI
Röskva telur mikilvægt að auka gagnsæi um hvernig er tekið á ítrekuðum kvörtunum eða ábendingum stúdenta vegna kennslu, kennsluhátta, eftirfylgni með námsáætlunum eða öðru slíku.
NOTKUN OPINNA NETNÁMSKEIÐA
Röskva vill að Háskóli Íslands nýti nýja tækni við kennslu og til að tengjast alþjóðasamfélaginu. Opin netnámskeið, sem og aðrar kennsluaðferðir, stuðla að auknum samskiptum við aðra háskóla og auka sömuleiðis samkeppnishæfni háskólans.
FJÖLBREYTTARA NÁMSMAT
Röskva hvetur Háskóla Íslands til að skoða nýjar leiðir í námsmati. Til að bæta gæði náms við háskólann þarf meðal annars að endurskoða hvernig nám er metið. Röskva leggur til að kennslumálanefnd háskólaráðs og Kennslumiðstöð háskólans vinni að fjölbreyttari og nýstárlegri námsmatsaðferðum. Líta skal sérstaklega til alþjóðlegra háskóla í fremstu röð sem hafa tekið upp annars konar námsmat.
BÆTT KJÖR STUNDAKENNARA
Röskva vill að kjör stundakennara við Háskóla Íslands verði bætt. Margar deildir neyðast til þess að ráða inn stundakennara vegna erfiðrar fjárhagsstöðu. Með bættum kjörum er hægt að auka kröfur um gæði kennslu og telur Röskva þetta því vera kjarabót fyrir bæði kennara og stúdenta. Þar að auki kenna margir stúdentar dæma- og verktíma innan skólans og er því um kjaramál þeirra að ræða.
BÆTTIR VERKFERLAR FYRIR STUNDAKENNARA
Röskva hvetur háskólann til að auka upplýsingaflæði til stundakennara, ásamt því að móta verkferla fyrir stundakennara hvað varðar fagleg vinnubrögð og samskipti nemenda og stundakennara.
SKÝRAR KENNSLUÁÆTLANIR
Röskva telur bæði kennara og nemendur hagnast af því að hafa skýrar kennsluáætlanir tilbúnar og aðgengilegar nemendum áður en nám hefst í upphafi annar og við val á námskeiðum. Námsmat þarf að vera skýrt allt frá upphafi, bæði vægi og framkvæmd sem og allt námsefni og áætlun námskeiðsins. Verði breytingar á námsáætlun þarf að tryggja að þær séu gerðar í samráði við nemendur.
AUKIÐ SAMSTARF DEILDA OG SKÓLA
Röskva telur að aukið samstarf á milli deilda skólans sé öllum til hagsbóta og að slíkt ætti að nýta af meiri krafti. Bjóða ætti upp á fjölbreyttari samþættingu náms á milli deilda og sviða. Einnig telur Röskva að samstarf milli íslenskra háskóla sé öllum til hagsbóta. Deildir háskólans ættu að kynna slíka möguleika fyrir nemendum og kynna sér hvernig standa mætti að auknu samstarfi milli háskóla.
AUKIÐ VÆGI KENNSLU
Röskva vill að breytingar á matskerfi opinberu háskólanna, sem hefur áhrif á framgang og laun kennara við háskólann, taki í stórauknum mæli tillit til gæða kennslu en ekki aðeins rannsóknarstarfs.
KENNSLUAKADEMÍAN - HVATI TIL BÆTTRAR KENNSLU
Röskva telur að innleiðing kennsluhvatakerfisins Kennsluakademíunnar hafi jákvæð áhrif á gæði kennslu. Hvati fyrir bættum kennsluháttum er mikil bót fyrir starfsemi háskólans og er einstaklega jákvætt að sjá að nú verði fjárhagslegur hvati fyrir kennara að bæta gæði kennslu. Tryggja þarf að samráð sé haft við nemendur varðandi tilnefningar og setu kennara í akademíunni.
DIPLÓMANÁM Í HÁSKÓLAKENNSLU
Röskva vill að til sé hvati fyrir kennara að taka viðbótardiplóma í háskólakennslu. Hægt er að sjá mun á gæðum á kennslu hjá kennurum sem sótt hafa námið og telur Röskva nauðsynlegt að fleiri kennurunum sé gert kleift að auka gæði kennslu sinnar.
INNLEIÐING VENDIKENNSLU
Röskva vill að kennarar séu hvattir til að nýta sér vendikennslu þegar hún á við. Vendikennsla getur aukið gæði námskeiða til muna, sérstaklega þar sem þurfa að fara fram miklar umræður um námsefnið og í fjölmennum námskeiðum. Þá ætti að setja á legg einhvers konar hvatningakerfi fyrir kennara þar sem í vendikennslu felst auka vinnuálag fyrir þá vegna upptöku á fyrirlestrum fyrir tíma.
SAMRÆMING VINNUÁLAGS OG EININGA
Háskólinn á að fara eftir alþjóðlegum stöðlum um ECTS einingar en þrátt fyrir það upplifa stúdentar í flestum deildum mismikið vinnuálag eftir kennurum og námskeiðum. Háskólinn hefur skuldbundið sig til að gæta að einingaálagi í gegnum Bolognaferlið og krefst Röskva þess að farið verði eftir því. Röskva vill að háskólinn fari í átak innan allra deilda til þess að tryggja að öll námskeið fylgi stöðlum um vinnuálag sem liggur að baki hverrar ECTS einingar.
- JAFNRÉTTISFRÆÐSLA -
KYNJAFRÆÐI VERÐI SKYLDUFAG Í KENNARAMENNTUN
Röskva hefur beitt sér fyrir því að kynjafræði verði sett inn í námskrár Menntavísindasviðs sem skyldunámskeið. Menntakerfið á stóran þátt í mótun og viðhaldi á staðalímyndum kynjanna. Kennarar gegna miklu ábyrgðarhlutverki hvað þetta varðar og því er mikilvægt að kennarar framtíðarinnar hafi þekkingu á þessu sviði.
FULLT NÁM Í KYNJAFRÆÐI
Röskvuliðar hafa unnið með prófessorum í kynjafræði innan Háskóla Íslands að því að hægt verði að taka 120 ECTS í kynjafræði sem mun auka möguleika á menntuðum framhalds- og grunnskólakennurum í faginu. Röskva vill að í boði verði fullt grunnnám í kynjafræði.
JAFNRÉTTISFRÆÐSLA FYRIR STARFSFÓLK
Mikilvægt er að starfsfólk á öllum fræðasviðum háskólans fái viðeigandi jafnréttisfræðslu, og sé undirbúið til að takast á við fordóma og einelti. Enn fremur ætti starfsfólk aldrei að tala niður til ákveðins þjóðfélagshóps eða ýta undir fordóma. Mikilvægt er að framfylgja ávallt jafnréttisstefnu skólans.
- AÐSTAÐA STÚDENTA -
FJÖLBREYTT NÁMSAÐSTAÐA
Tryggja þarf fjölbreytta námsaðstöðu stúdenta í öllum kennslubyggingum háskólans. Stúdentar eiga að geta átt sér athvarf utan heimilis til náms. Við breytingu á skipulagi á húsnæði háskólans er mikilvægt að sett sé í forgang að aðstaða nemenda sé bætt. Röskva berst fyrir fjölbreyttri les- og hópavinnuaðstöðu sem fellur að fjölbreyttum þörfum stúdenta.
GÆÐI NÁMSAÐSTÖÐU
Röskva vill að háskólinn hugi að gæði námsaðstöðu bygginga, þar af má nefna aðgengi að fjöltengjum, gæði húsgagna, lýsingu, plöntur og fleira sem hefur áhrif á líðan nemenda í rýminu.
EFLING HAGSMUNASAMTAKA OG NEMENDAFÉLAGA
Nauðsynlegt er að háskólinn styðji við bakið á hagsmunasamtökum og nemendafélögum innan skólans. Mörg félög glíma við aðstöðuleysi og erfitt getur verið að koma nýjum félögum á legg. Röskva krefst þess að Háskóla Íslands hafi samráð við hagsmunafélög þegar málefni sem snúa að þeim eru til umræðu.
TRYGGJA BER AÐGENGI AÐ NÁMSEFNI
Röskva telur óboðlegt að námsefni og námsbækur hafi ítrekað verið uppseldar í bóksölum eða hjá dreifingaraðilum. Slíkt takmarkar aðgengi að námi og mun Röskva berjast fyrir því að komið sé til móts við nemendur í þessum aðstæðum. Enn fremur mætti benda nemendum á leiðir til þess að nálgast námsefni rafrænt. Til dæmis mætti auka framboð á rafrænu námsefni og rafrænum gagnagrunnum.
SKIPULAG STUNDATAFLNA
Röskva kallar eftir því að við skipulagningu stundataflna verði tekið meira tillit til ferða milli kennslubygginga þar sem erfitt getur verið fyrir fólk að koma sér á milli bygginga á stuttum tíma. Óásættanlegt er að stundatöflur geri nemendum erfitt fyrir að koma sér á milli tíma með öðrum hætti en á einkabíl.
- RÉTTINDI STÚDENTA -
EINKUNNASKIL
Það er skýr krafa að kennarar skili af sér einkunum á tilsettum tíma. Til eru reglur þess efnis og mikilvægt er að framfylgja þeim. Sömu reglur eiga að gilda um lokapróf og önnur misserispróf, verkefni og ritgerðir.
AÐGENGI AÐ GÖMLUM PRÓFUM
Stúdentar eiga rétt á aðgengi að gömlum prófum en því er oft ábótavant. Uppbygging prófa er að jafnaði mjög svipuð og það skiptir marga stúdenta gríðarlegu máli að geta kynnt sér uppbygginguna fyrirfram. Þar að auki eru gömul próf oft í dreifingu frá eldri nemendum en til þess að jafnrétti sé tryggt þurfa þau að berast beint frá kennara.
NOTKUN PRÓFNÚMERA
Í reglum Háskóla Íslands kemur skýrt fram að notkun prófnúmera eigi að vera meginregla þegar kemur að próftöku. Röskva telur mikilvægt að nemendum sé tryggð nafnleynd við próf og fagnar innleiðingu prófakerfisins Inspera sem tryggir nafnleynd nemenda og þ.a.l. hlutleysi kennara. Röskva telur þó að það sé þörf á fjölbreyttari lausnum sem tryggja nafnleynd nemenda. Röskva ítrekar mikilvægi þess að vandað sé til verka og kennurum veittur stuðningur og aðstoð við upptöku kerfisins.
SJÚKRA- OG ENDURTÖKUPRÓF
Allir stúdentar háskólans eiga að sitja við sama borð þegar kemur að sjúkra- og endurtökuprófum. Röskva krefst þess að háskólinn hlusti á kröfu stúdenta og ráðist í aðgerðir þannig að tilhögun prófa sé samræmd á milli sviða. Jafnframt krefst Röskva þess að felld verði út undanþáguheimild um að deildum sé heimilt að halda sjúkra- og endurtökupróf vegna haustmisserisprófa í maí enda er fimm mánaða bið eftir sjúkra- og endurtökuprófum ólíðandi. Kröfur stúdenta eru skýrar en könnun sem sviðsráð félagsvísindasviðs gerði 2018 skilaði afgerandi niðurstöðu þar sem hreinn meirihluti stúdenta vildi halda sjúkra- og endurtökupróf áður en næsta misseri hefðist.
SKÝR RÉTTINDI NEMENDA
Mikilvægt er að nemendur séu meðvitaðir um eigin réttindi, bæði gagnvart kennurum og háskólanum. Til að tryggja það þarf að bæta upplýsingaflæði milli nemendafélaga og sviðsráða. Auk þess þarf að vekja frekari athygli á hlutverki hagsmunafulltrúa deilda og Stúdentaráðs.
AUKIÐ AÐGENGI AÐ PRÓFSÝNINGUM
Röskva krefst þess að prófsýningar séu betur auglýstar og aðgengi að þeim sé aukið. Nauðsynlegt er að stúdentar hafi tækifæri til þess að skoða próflausnir til þess að sjá hvað betur hefði mátt fara og þannig læra af reynslunni. Tryggja þarf að prófsýningar séu haldnar í öllum deildum og nemendum sé gefið tækifæri til að kynna sér niðurstöður sínar.
SÉRHÆFÐIR NÁMSRÁÐGJAFAR
Mikilvægt er að nemendur geti leitað til námsráðgjafa meðþekkingu á þeirra fræðasviði. Skoða þarf þann möguleika að hafa starfandi námsráðgjafa á hverju sviði sem þekkir deildir sviðsins inn og út svo nemendur geti nýtt sér þá þjónustu sem háskólinn vill bjóða upp á.
AUKIÐ SAMSTARF STÚDENTA VIÐ STJÓRNSÝSLU HÁSKÓLA ÍSLANDS
Nemendur eiga rétt á fulltrúa í stjórn sviða háskólans og tryggja þarf að skilaboð berist á milli sviðsforseta og sviðsráða. Mikilvægt er að fulltrúar nemenda í stjórn sviða hafi atkvæðisrétt. Tryggja þarf að umræður um málefni sviðsins fari ekki fram annars staðar en á fundum þar sem fulltrúar stúdenta eiga sæti svo að þau séu meðvituð um allar hliðar mála. Með nánara samstarfi og meiri samskiptum stúdenta við stjórnsýslu háskólans er hægt að auka vægi og áhrif stúdenta í ákvarðanatöku. Röskva vill sömuleiðis sjá virka fulltrúa nemenda á öllum deildarfundum innan háskólans.
STARFSNÁM
Röskva telur að stefna eigi að því að auka framboð af starfsnámi og skal liggja fyrir í upphafi hverju sinni hvernig starfsnámið er metið til eininga. Starfsnám er mikilvægt tækifæri fyrir stúdenta til að kynnast tilvonandi starfsumhverfi og atvinnumöguleikum eftir nám. Auk þess ætti að stefna að því að starfsnám, sem nemendur eru skyldaðir til að taka samkvæmt kennsluskrá, skuli vera launað í samræmi við álag og ábyrgð. Stofna mætti nefnd sem héldi utan um starfsnám og miðlaði upplýsingum á milli stúdenta og deildarráðs.
-MÁLEFNI FJARNEMA -
Aðgangur að fjarnámi er jafnréttismál fyrir nemendur sem sökum heilsu, fjárhagsstöðu eða búsetu sjá sér ekki fært að stunda staðnám við Háskóla Íslands og bera stúdentar hag af þeim möguleika að geta stundað fjarnám. Bæta þarf aðstöðu fjarnema til muna og tryggja að þeir þurfi ekki að leggja út háar fjárhæðir til að geta mætt í staðlotur.
AUKIÐ FRAMBOÐ FJARNÁMS
Aðgangur að fjarnámi er jafnréttismál fyrir þá nemendur sem sökum heilsu, fjárhagsstöðu, búsetu eða annarra þátta sjá sér ekki fært að stunda staðnám. Ýmis tækni er nú þegar til staðar og mun Röskva halda áfram að berjast fyrir því að hún sé notuð í auknum mæli til að efla fjarnám. Röskva vill jafnframt að fleiri námsleiðir við háskólann verði í boði í fjarnámi.
HAGSMUNAGÆSLA FYRIR FJARNEMA
Árið 2020 voru kosningar til Stúdentaráðs færðar svo þær færu fram í staðlotu fjarnema og er það hluti þess að efla þátttöku þeirra í kosningum. Röskva vill að Stúdentaráð haldi áfram að kynna hagsmunagæslu sína fyrir fjarnemum og leiti frekari leiða til að efla þátttöku þeirra í hagsmunabaráttu stúdenta.
BETRA AÐGENGI AÐ STAÐLOTUM
Fjarnemar sem búa utan höfuðborgarsvæðisins þurfa að leggja til töluverðar fjárhæðir til þess að taka þátt í staðlotum. Röskva vill að komið sé betur til móts við þá. Tryggja þarf fjarnemum ódýra gistingu á höfuðborgarsvæðinu og hagstæð fargjöld, t.d.með afsláttum í gegnum gistiheimili, rútufyrirtæki og flugfélög.
RÖSKVA VILL INNLEIÐA FERÐASTYRKI
Röskva vill, í samræmi við hugsjón sína um jafnrétti til náms, fá ferðastyrk/afslátt fyrir stúdenta sem stunda fjarnám þegar staðmæting er áskilin. Ferðalán Menntasjóðs námsmanna í samræmi við verðlag ætti að standa fjarnemum til boða.
BÆTT SKIPULAG STAÐLOTA
Röskva krefst þess að skipulag staðlota verði bætt og betur sé staðið að aðstöðu fjarnema en hún hefur verið harðlega gagnrýnd. Röskva krefst þess að unnið verði að úrbótum til þess að bæta staðlotur og gera þær hentugri fyrir fjarnema og í takt við þeirra vilja.